Í gær fórum við í athyglisverðan borðstofuborðsbíltúr alla leið til Toscanella sem er nálægt Imola. Það gengur frekar illa að finna borðstofuborð, erum ekki orðin nógu ítölsk fyrir sveitt stíflökkuð borð með rosa skrautfótum úr við sem er svona eins á litinn og brún plastborð í Rúmfatalagernum.Niðurstaðan varð því sú að við ætlum að athuga hvað kostar að láta smíða fyrir sig borð, hvorki meira né minna. Er að reyna að sætta mig við að borða fashanann við eldhúsborðið!
Hinsvegar lentum við í dálítið leiðinlegu á heimleiðinni, keyrðum fram á slys þar sem fólk hafði velt bílnum sínum á autostrada, vitum ekki hvort þau voru lífs eða liðin. Mér finnst nú reyndar dálítið skrítið að skíra þá hraðbraut Ítalíu sem tekur hve flest líf "Autostrada del Sole" eða hraðbraut sólarinnar.... Við keyrðum í vor fram hjá dauðaslysi þar sem lík lá á miðri hraðbrautinni og maður þurfti að passa að keyra ekki yfir það, það var hrikalega erfitt að hofa upp á.
Erum komin með miða á Hnotubrjótinn e. Tsjaíkovskí og Nuryev á Teatro degli Arcimboldi, en það er nýja La Scala vegna þess að það er verið að endurgera það gamla leikhús. Það væri nú flott ef svona metnaður væri fyirir tónlistarhúsi á Íslandi, það var byggt nýtt hátæknileikhús til þess að hægt væri að loka Scala í nokkur ár og það er sko ekkert smá leikhús. Það verður gaman að sjá hvort ítalir kunna eitthvað að dansa ballett, hef aldrei farið á balletsýningu hér. Hef reyndar meiri trú á Frökkum í þeim efnum, en maður verður bara að vera bjartsýnn, allavegana gaman að sjá nýja leikhúsið og hlusta á tónlistina.
Jæja, nú bíður jólaundirbúningur, nóg að gera í þeim efnum.
Sigrun
Af Parmalífi........
mercoledì, dicembre 18, 2002
martedì, dicembre 17, 2002
Þetta var dáldið löng bloggpása, kannski get ég ekkert frekar skrifað blogg heldur en þegar ég var að rembast við að halda dagbók þegar ég var tíu ára. Við sjáum bara til, gallinn er bara að þá hættir fólk að nenna að kíkja á síðuna manns ef maður er latur að uppfæra...
Eins og líklegast flestir hafa gert sér grein fyrir, þá eru jólin að koma, og við HJÓNIN ætlum að sitja sem fastast í okkar heimabæ og halda ítölsk jól. Það verður ábyggilega skrítið, erum bæði með stein í maganum yfir því, en svona er þetta þegar maður er að reyna að vera stór og standa á eigin fótum! Þannig að í stað rjúpna verður fashani á aðfangadagskvöld, og bara parmaskinka eða salumi í stað hangikets á jóladag! Annars erum við hálf efins með fashanann, maður þarf nefninlega sjálfur að hálshöggva hann, og við erum svo lítil í okkur að hvorugt okkar þorir því! Hugsa sér að sjá slagæðarnar í hálsinum af dýrinu sem maður ætlar að smjatta á á aðfangadagskvöld...
Hingað á heimilið var keyptur Volkswagen Golf GTI síðastliðinn mánudag, og erum við á einni viku búin að keyra hann 1000 km! Það tók okkur aðeins tvo og hálfann mánuð að kaupa bílinn, þ.e.a.s. frá því að við sóttum um þartilgerða pappíra og þangað til að við fengum þá í hendurnar. Sumir á Íslandi myndu segja að það væri langur tími, en ég skal sko segja ykkur það að hér í Parma er það mettími, og ég held að afgreiðslufólkinu hjá bænum sem sjá um svona skemmtilegheit, hafi langað til að gera okkur að heiðursborgurum fyrir vikið! Anyway, þá virkar bíllinn og gott betur, fórum í Ikeabíltúr, í Parmabíltúr, Gissur fór til Verona, og svo fórum við í eftirminnilegt matarboð í Milano hjá Ingibjörgu verðandi innanhúsarkitekt. Milano er alveg ótrúlega grá borg á veturna, mér fannst ég komin í paradís þegar við keyrðum inn í Parma og sáum öll trén og GOSBRUNNINN okkar sem er hér rétt hjá. Já, það er nú betri þjónusta í Parma heldur en í Kópavogi, við vorum rétt flutt í bæinn þegar Sindaco (borgarstjórinn) ákvað að setja gosbrunn í hverfið okkar. Þar sem ég og mínir vinir höfum næstum alltaf búið í Kópavogi, finnst mér þetta lélegt af bærjarstjóra Kópavogs að vera ekki ENN búinn að reisa gosbrunninn góða sem við báðum hann um fyrir löngu. Enda er Parma soddan ríkisbubbabær að það var ekki við öðru að búast að þeir gerðu vel við sína.
Það er aldrei að vita nema ég líti hingað aftur inn og skrifi smá pistil, sjáum bara til!
Sigrun